31 desember 2006

o

Hah. Ég verð að segja ykkur sögu. Ég og Lára og Björt fórum á rúntinn í gærkvöldi og ákváðum að taka smá tsjill á Merkurhringnum. Við vorum eitthvað að spjalla og fjör, og svo segja stelpurnar: "Hey, Fanney, þú ert að fara útaf". Ég segi bara "Ó", og svo öskrum við afþví við fórum helvítis útaf veginum hægra megin! Þetta er einhver kúkamalarvegur , og ég náði næstum að komast aftur upp á veginn, en svo varð brattara niður, og dekkin hægra megin voru bara útaf og við vorum geðveikt skakkar og festumst þarna. Geðveikt klúður. Vissum ekkert hvað við áttum að gera, svo Lára hringdi í pabba sinn og eitthvað, og þegar hann kom hringdi hann í bróður sinn, en það gat enginn gert neitt svo það þurfti að hringja í Björgunarsveitina! Án gríns.
Það þurfti að halda við bílinn hægra megin á meðan það var hjálpað okkur út, svo hann myndi ekki velta. Björgunarsveitarbíllinn þurfti svo að draga bílinn upp, þversum.
Síðan fórum við bara aftur á rúntinn :D
Ég er ömurlegur ökumaður. Búin að hafa skírteinið í eina og hálfa viku, ég er búin að keyra á alla kanta bæjarins, drepa á bílnum þúsund sinnum, spóla einsog asni alltof oft, og nú keyrði ég útaf! Sem betur fer slösuðumst við ekkert, vorum líka bara á 30 eða eitthvað, og bíllinn er í fínu lagi. Núna fékk hann aðeins að standa undir nafni greyið, sem gula slysið.

Annars hefur jólafríið einkennst af vinnu allan daginn, leiðinlegir viðskiptavinir vælandi yfir því að við megum ekki brjóta reglur, eða yfir því að það sjáist í nærbuxurnar hans Birkis. Án gríns, þá fór einhver kona að tosa upp um hann buxurnar í gær! Hún var eitthvað reið.
Það var líka fín kona sem missti tveggja lítra appelsínflösku í gær, það var risa pollur fyrir framan goskælinn. Þá þurftum við sko að skúra.

Jólin voru ágæt, ég fékk fullt af fallegum gjöfum. Ég fékk meðal annars mjög nytsaman hlut, sem er plokkari með innbyggðu vasaljósi. Jahá, nú get ég sko farið að plokka augabrúnirnar í myrkri!

Ég er að horfa á leiðinlegasta þátt í heimi. Þessi þáttur nefnist Kryddsíld (nafnið bendir meiraðsegja til hve ömurlegur þáttur þetta er) og allt árið kvíði ég fyrir því að sjá þennan þátt. Og núna var verið að velja sjálfan Ómar Ragnarsson mann ársins. Mér finnst það aðeins of langt gengið, fyrir mér er hann bara lúði ársins. Kúkaði gjörsamlega á sig í þessu Kárahnjúkadæmi öllu. Fréttakonan er líka eitthvað skrítin í framan.

Já, það er gamlársdagur. Keypti nokkrar sætar rakettur (fékk gjafabréf í flugeldasöluna í jólagjöf frá Kaupfélaginu) sem ég ætla að sprengja í kvöld, og svo skal djamma. Fyrst partý og svo verður eitthvað knall í Félagsheimilinu. Það verður fjör.

-fnannenydoog

21 desember 2006

N

Jæja, einkunnirnar komnar í hús. Sumar mjög góðar, en aðrar ekki alveg jafn góðar. Yfirhöfuð gekk mér samt vel, sérstaklega miðað við að ég lærði sama og ekki neitt fyrir þessi próf. Ég landaði allavega feitum tíum í ensku og frönsku. Erik Fissers hlýtur að vera eitthvað skotinn í mér. Níu í þýsku, sem er svosem ásættanlegt. Átta í stærðfræði, sem er örugglega hæsta einkunn sem ég hef nokkurntímann fengið í því fagi. Man ekki hvað ég fékk í restinni, en það var ekkert merkilegt.
Ég er loksins komin með ökuskírteinið og hef verið að spæna upp malbikið á götum bæjarins síðan.
Ég spóla reyndar svolítið stundum og á það til að drepa á bílnum, en það reddast. Sérstaklega þar sem ég er á sætasta bílnum í bænum.
Byrjuð að vinna í kaupfélaginu aftur, það er ágætt. Nema það er nákvæmlega EKKERT búið að vera að gera þessa vikuna, afþví það eru svona fjörtíu manns að vinna þarna. Ömó að sitja bara inná lager og glápa útí loftið eða ráfa stefnulaust um búðina og leita að einhverju sem hægt er að fylla á. Og maður finnur aldrei neitt. Ég rata ekki einusinni þarna, það er alltaf verið að breyta og færa allt.
En ég get allavega hangsað í vinnunni í ágætis félagsskap þar sem Björt og Birkir eru að vinna líka. Þau voru líka fyrsta fólkið sem ég pikkaði upp í hjondæ megabeibið mitt.
Ég þarf að vera á kassa á morgun alveg frá eitt til sjö, takk fyrir. Á föstudegi fyrir jól. Þetta verður eitthvað áhugavert. Þessvegna ætlaði ég snemma að sofa þarsem ég hafði engin plön fyrir kvöldið, en ég fæ svo engan svefnfrið. Í fyrsta lagi, Andri ákvað að misþyrma trommunum í bílskúrnum. Hann snertir aldrei þessar trommur hérna heima, en svo, EINMITT þegar ég ætlaði snemma að sofa fyrir erfiðan dag, ákveður hann að prófa hve fast hann geti lamið þær án þess að gera gat á skinnið. Vá, takk kærlega. Hann er kominn í jólafrí þannig að ég ætla að vekja hann klukkan átta í fyrramálið, bara til að hefna mín. Í öðru lagi, fólk er stanslaust að hringja í mig. Ég svara náttúrulega ekki, þar sem ég er "sofandi", en þetta eyðileggur samt fyrir mér svefninn afþví ég vakna og pirrast og verð reið og hendi símanum í vegginn. Í þriðja lagi, pabbi er alltaf að kalla eitthvað á mig. Hann kallar bara: "Fanney!" og þá svara ég, en neei, þá kemur ekkert meira. Bara bögg.
Hættið að vera svona leiðinleg við mig! Ég vil bara sofa. Það verður örugglega brjálað að gera á morgun, og svo verð ég líka að vinna frá tvö til ellefu á þorláksmessu. Ég þarf minn svefn!
Smá tilkynning hér til viðskiptavina KVH: Ef þið ætlið að vera með bögg og kjaft og leiðindi og skæting, ekki gera það við mig. Ég er ekki að vinna þarna svo þið getið látið erfiða daginn ykkar bitna á mér. Ef einn enn öskrar á mig útaf einhverju sem ég get ekkert gert í, þá kveiki ég í húsinu hjá viðkomandi. Eða lykla allavega bílinn hans. Án gríns.
Lenti í einhverri ljótri kellingu í dag. Hún var með kjaft við mig BARA til að vera með kjaft. Auðvitað má ég ekkert svara á móti, ég þarf bara að brosa og vera kurteis. Ömó. Ég hefði helst viljað sparka í sköflunginn á henni, en neei ég þarf að sleikja mig upp við hana í staðinn. Frábært. Þetta er ömurlegasta vinna í heimi. En samt, þetta er vinnan mín og ég fæ borgað, svo ég reyni. Ég hef samt takmarkaða þolinmæði í viðbót, svo hagið ykkur.
Já, ég er reiður og bitur unglingur.

Annars var mamma að koma heim, ég ætla að plata hana til að gefa mér nammi.

Síja.

16 desember 2006

Gula slysið?

Man einhver hvaða dagur er í dag? Óskið mér til hamingju og gefið mér eitthvað fallegt.

Prófin búin í dag. Ég tók einhver sex próf og gekk vel í þeim öllum. Vona að einkunnirnar láti sjá sig bráðum. Þá ætla ég að segja "FEIS!" við alla tossana sem fá lægra en ég.

Annars seinkar því víst eitthvað að ég geti farið á rúntinn. Get ekki reddað mér skírteininu fyrr en í næstu viku, en það ætti varla að breyta miklu.

Ég braut skál í matsalnum í dag, það var geggjað töff. Ég sýndi enn og aftur að ég er svalasta manneskjan á vistinni :D

Ég byrja að vinna í KVH á mánudag. Rosalegt fjör.

Ég ætla ekki að blogga aftur fyrr en ég er búin að fara góðan rúnt með nýja ökuskírteinið. Tsjá.

14 desember 2006

ÉG NÁÐI BÍLPRÓFINU!


Rúntur á gulu hættunni eftir tvo sólarhringa. Geim?

11 desember 2006

4mm


Jæja, prófin loksins að taka enda, ég á bara tvö eftir. Það er mánudagur, en síðustu prófin mín eru á fimmtudaginn og föstudaginn, svo ég verð bara að hanga eitthvað. Fjögur próf semsagt búin, og mér er bara búið að ganga ágætlega. Ég held ég hafi rúllað stærðfræðinni upp í morgun, og ég sem var byrjuð að undirbúa mig fyrir fall í gærkvöldi. Sko kéllinn.
Ég tók bóklega bílprófið í síðustu viku og náði. Það gladdi mitt litla hjarta. Svo er verklega bara á miðvikudaginn, ég er hrædd.
Helgin var ágæt, fór á rúntinn með Helgu Rakel og Stellu á föstudagskvöldið, Stella keyrði fína gula bílinn minn fyrst ég má það ekki. Svo kom Jón Gústi líka með og hann fékk líka að keyra, og rifjaði upp gamlar hjondæ-minningar. Og btw, hjondæinn minn er aflmeiri en almeran hans Jóns, feis!
Á laugardaginn tók við laufabrauðsgerð þar sem ég stóð mig með sóma. Keyrði líka útí Tungu með pabba og við kíktum aðeins á ömmu sem var rosalega hress að vanda.
Á sunnudaginn þvoði ég bílinn minn og síðan kom frost og hann fraus, haha. Greyið. Njaah, hann lifir þetta af. Ekkert sem hjondæ ræður ekki við...
Síðasta prófið næsta föstudag, ég verð 17 ára á laugardag (rúst! það er svo gaman að vera desemberbarn), það fer eftir því hvort ég nái bílprófinu eða ekki hvort ég djammi eitthvað í tilefni aldursins. Vonandi næ ég því og þá verð ég bara að keeeeyra endalaust. Allavega þangað til á mánudaginn þegar ég byrja að vinna í Kaupfélagi kjörbúð. Það er svo gaman.
Ég nenni ekki að gefa ykkur meira blogg í bili, hafið það gott og sendið mér góðar hugsanir á miðvikudaginn. Ég mun þarfnast þess.

-FanneiD

05 desember 2006

óbíheiv

Lítið að frétta. Prófin byrjuðu á föstudaginn, þá fór ég og rúllaði upp einhverju þýskuprófi. Kíkti svo aðeins í stórborgina og reyndi að versla eitthvað, það gekk samt eitthvað brösuglega því ég á engan pening. Hitti Helgu Unu líka, það var gaman.
Svo... keypti ég mér bíl! Sætur gulur Hjondæ accent sem ég er búin að vera skotin í í einhvern tíma. Hann er algjört megabeib. Sko, það má alveg vera með hjondæ accident brandara, á meðan það er ekki leiðinlegt. Bannað að segja ljóta hluti. Ókei?
Ég kann reyndar ekki ennþá að kveikja á útvarpinu, og það tók mig og pabba nokkra klukkutíma að finna rúðuopnarana, en annars virðist sambandið alveg vera að ganga upp. Þá verður maður bara að vonast til að ná bílprófinu. Er að fara í bóklega á morgun og er skíthrædd. Svo er ég líka búin að fara í nokkra ökutíma og það gengur ömurlega. Sko, ég get alveg keyrt pabbarenó og litlahjondæ. En það gengur bara ekki upp hjá mér að keyra dísiljeppa. Jeppadraslið vill ekkert hafa mig með og drepur bara á sér eða keyrir útí kant eða á vitlausan vegarhelming og allir þessir takkar rugla mig bara í ríminu og ég finn aldrei ljósin.
Ég ætla samt að fá bílprófið sextánda. Ætla!
Annars er sólarhringurinn orðinn öfugur hjá mér. Hef ekki farið að sofa fyrr en um sex síðustu tvær nætur og þetta er allt komið í drasl. Svaf í tvo og hálfan tíma í nótt (eða morgun eða eitthvað) og skellti mér svo í enskupróf. Ógeðslega stutt próf, litlar þrjár blaðsíður sem ég kláraði á tíu mínútum. Svo þurfti ég að bíða í hálftíma afþví maður þarf að sitja í einhvern 45 mínútna lágmarkstíma. Geggjað að sitja bara og horfa út í loftið á meðan mig dreymdi bara um smá svefn.
Ég er með svo mikla vöðvabólgu og hausverk að ég græt :'/ Íbúfen og paratabs virka ekki, svo ég kvelst bara. Ömó. Auglýsi hér með eftir nuddi og/eða morfíni! Takktakk.

Farin að leggja mig eða læra eða eitthvað. Fjögur próf eftir. Myndir af kagganum koma eftir helgi.

-fnei