27 júní 2007

nonono

Úff ég ætti nú að vera að læra, en ég nenni því ekki og ætla frekar að horfa á ANTM. Var að vinna alla síðustu helgi, bæði í kvh og á sirop, fékk samt smá frí og ákvað að kíkja í húsafell þar sem fjölskyldan var í útilegu með nýja fellihýsið. Fór strax eftir vinnu á laugardeginum í glampasólskini, á leiðinni í húsafell á gulu hættunni og vegurinn var auður. En úps, ég ofmat víst rötunarhæfni mína, þar sem ég villtist á leiðinni í Húsafell. Ég kenni lélegum leiðbeiningum frá þeim gömlu og því að engar vegamerkingar séu þarna, um. Já ég beygði hjá Baulu þar sem ég sá skilti í Húsafell, fínt, og keyrði þangað til ég sá næsta skilti. Það gerðist ekki, og áður en ég vissi af var ég í Borgarnesi. Vel gert Fanney, vel gert.
Ég endaði þó í Húsafelli með mömmu, pabba, andra, auk þess sem maría og kristinn (plús bumban á maríu og tíkurnar) voru í grenndinni. Það var ótrúlega gott að fá smá frí, sofa út alveg til tíu og kíkja í sund í góða veðrinu. Ég þurfti samt að fara snemma heim til að fara á pizzavakt á sirop. Jeei!

Eins og allir sem hafa unnið í kvh vita, þá eru mánudagar mjög leiðinlegir. Þá koma nefnilega engar nýjar vörur og það er ekkert til, svo það er ekkert að gera. Við Emilie vorum látnar í að taka til uppi á lofti þar sem við fundum ýmislegt skemmtilegt dót, gamla slúðurtöflu úr sláturhúsinu, öxi (já alvöru öxi!), skinn af óþekktu dýri og mjög skemmtilegt svona rafmagnsmagaæfingabelti (hvað heitir svona græja?). Við vorum mjög spenntar fyrir því að prófa þetta, sérstaklega þar sem gaurinn framaná kassanum var með svo massaðan maga að ég trúi varla öðru en að hann sé með sílikon í sixpakkinu. En jæja, fyrst þurftum við að setja batterí í græjuna, og kíktum í byggingavörudeildina í leit að skrúfjárni. Við skrúfuðum þetta í sundur, en þá kom í ljós að við vorum aðeins of tæknilegar, því það átti ekkert að skrúfa þetta í sundur. Það þurfti bara að smella til að opna batteríhólfið, haha. En jæja, við komum þessu loksins í gang og fengum nokkra strauma úr þessu í fingurna og það var vont! Svo við þorðum ekki að skella þessu á magann.

Það var eitthvað rosalega skemmtilegt sem ég ætlaði að blogga um en man ekki hvað var.

Ég er líka ekki alveg með á hreinu hvað ég ætla að gera næstu helgi. Einhverntímann var ég búin að ákveða að fara á Hólmavík, en núna er ég ekki alveg jafn viss, ég þarf að vinna í kvh á laugardeginum og er að spá í að taka einhverjar vaktir á sirop líka. Sooorrí jóngústi, ég kem næst!

-Fnei.

(ef stífa tussan hún Jael dettur ekki út núna ætla ég aldrei aftur að horfa á þennan skítaþátt)

20 júní 2007

blogg

Heyrðu já, kominn tími á blogg einu sinni enn.

Að vanda snýst allt líf mitt um yndislega kaupfélagið okkar. Á föstudaginn slitnaði samt ljósleiðari og netkerfið virkaði ekki svo við gátum ekki tekið við kortum. Það var ekkert sérstaklega yndislegt. Mér leið pínu eins og ég væri föst í Jericho þáttunum á skjáeinum (sem eru btw leiðinlegustu þættir í heimi) og heimsendir nálgaðist. Já, frekar vil ég nú kjarnorkusprengju heldur en reiða og stressaða viðskiptavini.
Svo skelltum ég, Björt og Helga Rakel okkur á Akureyri á Bíladaga. Ég og Björt tjölduðum rétt fyrir utan Ak þar sem nánast allir frá Hvammstanga og einhverjir auka voru búnir að planta sér. Jón Gústi og Bjarki mættu líka sem var töff. Þeir redduðu okkur meiraðsegja Guðrúnu Sonju sem var ennþá meira töff. Við grilluðum, drukkum, kíktum í bæinn og vorum töff. Veðrið hefði ekki getað verið yndislegra.
Það var geggjað drama á laugardagskvöldinu, vorum í bænum alla nóttina. Þorvarður lamdi Benjamín sem þurfti að fá fimm spor í augabrúnina, og Elín ætlaði að lemja Björt útaf einhverju fáránlegu. Já, svona er ungviðið í dag. Maður var hættur að kippa sér upp við það þegar einhverjir gaurar voru að taka hvor annan hálstaki og stappa á höfðinu á hvor öðrum við hliðiná manni.
Yndislegt. Útifyllerí eru það eina sanna á sumrin. Ég og Ævar kíktum reyndar inná Kaffi Amor, en það var bara gay í orðsins fyllstu merkingu. Það voru bara hommar þarna inni.
Bíladagar voru samt æði. Yyyndislegt að vera með varðeld á grilli, það fóru nú nokkrir pokar af kolum og meira af grillvökva í það. Það bjargaði okkur þó frá því að frjósa í hel.

Annars er ég byrjuð í aukavinnu á Café Síróp (gamla þinghúsið). Mjög flottur staður, endilega kíkið. Byrjaði í gærkvöldi og það var rosalega gaman. Mann vantar nú alltaf meiri pening. Ég hefði samt gott af meiri tíma, hef varla tíma fyrir kaupfélagið, hvað þá skólann. Þetta reddast samt. Það gerir það alltaf.

Umsóknin mín í MH var samþykkt. Þetta er loksins allt að ganga upp, komin með íbúð og skólavist. Núna þarf ég bara að redda mér vinnu.

Ég er búin að afgreiða nokkrar skemmtilegar týpur síðustu daga. Til dæmis reiða kallinn sem kom til mín: "HVAR ERU ANDSKOTANS RÚSÍNURNAR?!". Og líka rólega kallinn sem týndi allar vörurnar upp úr körfunni sinni í rólegheitum og sagði: "Ég ætla að fá þetta... og þetta... og þetta... og þetta..." og sagði þetta um hverja einustu vöru. Í dag afgreiddi ég svo sparsömu konuna sem kom með fullan poka af klinki og borgaði rúmar fimmhundruð krónur bara með fimmköllum og einakrónum. Og vitiði hvað... alveg slétt 545 hjá henni. Ég var samt heillengi að telja þetta og moka öllu klinkinu upp af borðinu. Spáið samt í því hvað peningur safnast saman. Kannski ætti ég að fara að safna klinki í poka. Fara svo í sjoppuna og segja: "Ég ætla að fá bensín fyrir svooona mikið" og sturta þessu öllu á borðið. Rúst!

10 júní 2007

lel

Kominn tími á nýtt blogg eftir góða viku. Vinna vinna vinna, í sæta kaupfélaginu. Kaupfélagið verður meiraðsegja ennþá sætara í næstu viku, því þá þarf ég ekki að vera neitt á kassa. Get samt ekki munað eftir neinum skemmtilegum atvikum. Við stelpurnar grilluðum heima hjá Ágústu í gærkvöldi og ég sötraði nokkra bjóra sem var kósí. Kíkti líka aðeins á rúntinn með Birki, en hann er afar fær rúntari.
Ég og Ágústa skelltum okkur svo í road trip í dag, já ég keyrði mr. yellow til höfuðborgarinnar. Það gekk nokkuð vel, nema að ég gjörsamlega missti taktinn í Borgarnesi og keyrði eins og fimm ára krakki sem mér fannst samt fyndið. Svo þegar við vorum að borga í göngin ætlaði ég að rétta lúgugaurnum kort, en missti það og það datt á stéttina fyrir utan og mér fannst það svo fyndið að ég gat ekki hætt að hlæja, og þurfti að fara út og ná í það og allir á eftir okkur í röðinni hötuðu mig geðveikt afþví ég var að tefja. Lúgukallinum fannst þetta ekki jafn fyndið og spurði: "Já er þetta svona hlægilegt?". Húmorslaus.

Kíktum aðeins í búðir og skoðuðum svo íbúðina okkar. Já, við fundum hina fullkomnu íbúð á langholtsvegi og skrifuðum strax undir. Mig langar að flytja inn núna strax. Er strax byrjuð að spá hvað ég ætla að geyma hvar. Ógsla spennt! Sæta húsið mitt.

Háttatími.
-fannei

02 júní 2007

tr00

Ég gleymi alltaf að blogga. Er oft búin að skrifa það allt í huganum, en svo fer það eitthvað fyrir ofan garð og neðan. Ekki töff sko.
Ég er allavega búin að skrá mig í þrjá áfanga í sumarskóla Versló; einhvern tolkien áfanga í ensku, íslensku 503 og áfanga í listasögu. Ég er ógeðslega spennt fyrir þessum listasöguáfanga, er byrjuð að lesa bókina og þetta er svo skemmtilegt og áhugavert að ég ræð mér varla. Það er ekki hægt að segja það sama um Íslenskuna. Við eigum að lesa Sjálfstætt fólk eftir Laxness(sem er totally ekki besti vinur minn), og ég reddaði mér bókunum á bókasafninu. Þegar ég tékkaði síðan á bókunum sá ég eiginlega eftir því að hafa ekki bara keypt þær. Það kom nefnilega í ljós að þessar bækur eru úr fyrstu útgáfunni af Sjálfstæðu fólki, og komu út 1934-1935 takk fyrir. Án gríns, þá eru sumar blaðsíðurnar byrjaðar að molna úr elli og ég verð að geta í eyðurnar. Frábært. Kannski maður ætti að redda sér frumútgáfu af biblíunni svona við tækifæri, spennusaga frá árinu 500 þar sem jesús er vondi kallinn og júdas ískarjot sá sæti og skemmtilegi og mæja mey er lesbó.

Mér og Björt leiddist síðustu helgi og okkur langaði í ís. Sjoppan hérna á Tanganum er bara svo glötuð að þegar hún er ekki lokuð þá selur hún ekki ís í vél. Jæja, við ætluðum þá bara að skella okkur á Blönduós til að fá okkur ís. En úps, vorum aðeins of lengi á leiðinni og það var búið að loka blöbbabúllunni þegar við komum þangað. En andskotinn hafi það, ekki ætluðum við að fara heim íslausar, svo við héldum áfram. Já gott fólk, við fórum á Sauðárkrók, keyptum okkur ís og bensín og fórum svo heim aftur. Hve töff getur maður verið.

Við í Kaupfélaginu héldum staffapartí í gær. Fólkið í fæðó á efri hæðinni er alltaf að hafa partí og borða köku, svo við vildum líka partí, sérstaklega afþví anna boss var að hætta í kvh og að byrja að vinna á efri hæðinni hjá erkióvinunum. Brynja reddaði málunum og bauð okkur í grillpartí á Laugarbakka. Það var geggjað fjör, það var gott veður og við spiluðum krikket og liðið mitt vann, og svo fór að rigna og við spiluðum partí og kó og mitt lið tapaði. Ég fór á laugarbakka á bíl, en svo var svo gaman þar að ég var ekki í ástandi til að keyra heim aftur. En mér er alveg sama, þetta var geggjað gaman og mig langar í meira svona fjör. Það er líka svo sætt fólk í kaupfélaginu.
Var að vinna í dag og það var ótrúlega rólegt fyrst og bara chill, en svo fylltist kaupfélagið af fólki með öskrandi börn. Ooog það versnaði. Já, fólkið gaf krökkunum trúðaís með flautu, svo þá var kaupfélagið fullt af öskrandi börnum í sykurvímu, með flautur í þokkabót! Ég hélt ég myndi fá heilablóðfall af pirringi, en ég lifði þetta af. Eintóm illgirni í þessum foreldrum að láta börnin fá útrás í kaupfélaginu, svo þau verði komin með leið á þessum asnalegu flautum þegar þau eru komin heim.
Það er líka annað sem fer mjög í taugarnar á mér í kaupfélaginu. Það er þegar fólk rétt treður sér inn um dyrnar á lokunartíma, það veit að við erum að loka, en er bara svo ótrúlega sjálfselskt og ljótt að það er bara að hanga og skoða og spjalla og svona. Þeim er alveg sama þótt ég þurfi að bíða og bíða og bíða á kassanum og þeim er alveg sama þótt ég sé svöng og mig langi heim að borða matinn hennar mömmu. Hví gerir fólk þetta? Hví kemur það vísvitandi á lokunartíma og flýtir sér ekki einusinni? Ég skil það ekki. Ég er aldrei vond við fólk að ástæðulausu (nema það sé ljótt, eigi það skilið, eða ég sé á þeim tíma mánaðarins). Svona langt myndi ég þó aldrei ganga. Skammist ykkar.
Fyrst ég er nú í kaupfélagssögunum, þá lenti ég í mjög hræðilegum aðstæðum í fyrradag. Ég var á kassa og það kom randafluga inn. Án gríns, þá var þessi fluga svo stór að ég hélt fyrst að hún væri fugl. Afa hennar Söreir fannst flykkið alveg frábært. Ég skrækti bara, dinglaði og dró flíspeysuna yfir höfuðið þangað til flugan fór út. Svo gerðist þetta sama aftur. Í þriðja skiptið fór flugan ekki út. Þá hljóp ég inn á lager og var byrjuð að skjálfa, en ákvað svo að vera bara harða gellan sem hræðist ekkert og ætlaði að reyna að afgreiða nokkur epli. Ég var samt ekki harðari en svo að þegar ég sá fluguna tróð ég mér undir kassann og fór að gráta þangað til flugan fór út. Mér fannst þetta samt svo hallærislega fyndið að ég flissaði á milli ekkasoganna. Ég er semsagt ekkert hörð gella, ég er bara glötuð gella.

Ég er líka að spá að plata mannanafnanefnd í að leyfa mér að taka upp aðra ritmynd af nafninu mínu. Þá myndi ég heita Fanei eða Fannei. Ég er ekki enn búin að sætta mig við nafnið mitt, þegar fólk kallar "Fanney" á mig eða ég les einhverstaðar nafnið mitt, fatta ég aldrei strax að það sé verið að meina mig. Komin næstum átján ár og ég man ekki ennþá hvað ég heiti. En ef ég héti Fanei þá væri þetta allt annað mál. Það er ógleymanlegt.

-Fanei (hin eina sinnar tegundar).