25 ágúst 2008

dfgfghj

Heyrðu sumarið hefur verið mjög fínt. Ég er samt búin að fara í bara eina útilegu eftir að ég kom heim aftur, en það verður að duga. Ég heimtaði sko útilegu um versló, en það sem við erum orðin of gömul fyrir fyllerísútihátíðir fórum við í rómó útilegu á Þingvelli. Ég elska nefnilega Þingvelli og fer þangað eins oft og ég get. Viktor var ekki alveg jafn hrifinn, þar sem honum finnst mýflugur ekkert spes. Í leiðinni kíktum við á Björt, sem ég hafði ekki hitt lengi, og mér fannst æði að pota í kúluna hennar haha.
Á laugardeginum ætluðum við svo að hitta mín gömlu og Andra, og sáum á einhverju kortaskilti að það var hægt að fara styttri leið í Borgarfjörðinn þar sem þau voru, þar sem okkur fannst algjör tíma- og peningasóun að keyra alla leið til baka á þjóðveg 1, borga í göngin, og keyra svo aftur inn í landið í Borgarfirði. Svo við tókum sjortkött, en áttuðum okkur aðeins of seint á því að þetta var fjallvegur og eiginlega bara fær fjallajeppum. En gula hættan meikaði sko Kaldadalsleiðina og mér fannst svo fallegt þarna að ég ætla að fara aftur við tækifæri. Yndislegt veður líka, og jöklar hægri vinstri. Og við mættum gaur á hjóli! Hann var bara að hjóla yfir stórgrýtt fjallið, rosa fyndið. Einhver útlendingur sko, það segir sig sjálft.
Man ekki hvað ég er annars búin að vera að gera. Búin að vera að vinna heilmikið, það er aðeins meira fjör á Nesvöllum núna, gamla fólkið er að taka við sér. Svo mér leiðist ekki alveg jafn mikið.
Viktor varð svo tvítugur 8. ágúst, og í tilefni þess fór hann sko þrisvar í ríkið þann daginn og eyddi þrjátíuþúsund kalli. Það var partí hjá Silju sama kvöld sem var mikið fjör í, og granny var aðalpían og fór með öllu liðinu niður í bæ. Hún varð samt soldið loftlaus greyið.
Kvöldið eftir var svo partí hjá okkur, fullt af bjór og fullt af fólki, enduðum niðrí bæ og það var rosalega gaman.
Kíktum norður eina helgi á ættarmót hjá Reykjarfjarðarættinni, Viggi fór á svið til að spila með rokkstjörnunum í ættinni minni og fannst það best.
Fórum líka á menningarnótt, Viktor var dræver enda nýkominn úr endajaxlatöku, við vorum heillengi í bænum. Mér blöskraði samt hvað það var mikið af blindfullum smákrökkum þarna að lemja hvor aðra. Ekki töff sko.
Svo eignaðist Anna María systir hans Vigga lítinn strák fyrir nokkrum vikum, svo við erum að fara í skírn þar næstu helgi.
Björt og Sibbi eignuðust svo lítinn kút um daginn líka, við fórum í skírnina hjá honum um helgina. Gullfallegur strákur sem fékk nafnið Victor Þór við athöfn í Fríkirkjunni við Tjörnina, og svo var kaffiboð heima hjá þeim á Vatnsholti eftirá þar sem maður borðaði algjörlega yfir sig af gúrmei brauðrétt og kökum og tertum og mig langaði bara að taka pólverjann á þetta og troða í vasana til að taka með heim. Litli Victor var ekkert smá stilltur, svaf bara í gegnum allt dæmið, rumskaði ekki einusinni þegar það var verið að sulla vatni á hausinn á honum.

Annars er fátt að frétta af okkur skötuhjúunum, erum að leita að draumabílnum á viðráðanlegu verði sem gengur svona sæmilega, það verður eitthvað vesen líka að losna við drusluna mína. Hugsa að það endi þannig að ég þurfi að borga einhverjum fyrir að taka við henni.
Já og svo erum við á leið í brúðkaup eftir tæpan mánuð, á Ísafirði. Maður er alltaf svo upptekinn, plön hverja einustu helgi.

Háttatími
-Fanney

1 Comments:

Blogger Unknown said...

Hlakka til að sjá þig um helgina :)

Kv bryndíshelga ;*

19/9/08 09:05  

Skrifa ummæli

<< Home