09 júní 2008

oz

Við opnuðum á Nesvöllum fyrir viku. Það er svo rólegt að mér bókstaflega leiðist í vinnunni. Sem betur fer er bara opið í tvo tíma á dag. Það er alltaf eitthvað í gangi á sama tíma, einn daginn var bingó, þann næsta var boccia... stelur allri traffíkinni frá mér. En sem betur fer eru tveir flatskjáir fyrir framan dyrnar hjá mér, svo ég get horft á National Geographic á meðan ég bíð eftir kúnnum.
Um helgina vildi ég endilega gera eitthvað skemmtilegt, svo ég fékk fjölskylduna til að taka fellihúsið í Húsafell og hitta mig og Vigga þar. Ég elska útilegur. Við grilluðum í grenjandi rigningu og roki á laugardagskvöldinu, og veðrið versnaði bara þegar leið á kvöldið, og við enduðum á að taka fortjaldið niður áður en það myndi fjúka í burtu. Morguninn eftir vöknuðum við hinsvegar í 19 stiga hita og glampandi sól og logni. Yndislegt! Fórum í sund og sólbað og borðuðum fullt af góðgæti... og ég sólbrann. Ég er ennþá eins og skrímsli, eeeldrauð í framan og á bringunni, nema ég er með skjannahvítt sólgleraugnafar í kringum augum. Ekkert sérstaklega töff, en hey, ég náði mér þó í smá lit, þó það hafi ekki alveg verið liturinn sem ég sóttist eftir.
Næsti höfuðverkur er að pakka niður. Ég er að byrja að föndra við þetta, þar sem ég þarf langan tíma til að pakka niður, sama hvert ég er að fara. Ég líka má bara taka með mér 15 kíló. Það er algjör martröð að þurfa að gera upp á milli fatanna minna sem ég elska svo mikið. Það eina sem ég er búin að ákveða að taka er nýja bikiníið (sem kostaði btw eina og hálfa milljón eða svo) og gúmmístígvél. Það eru nefnilega 20 stig og grenjandi rigning í Sydney þessa dagana.

Restin af vikunni á svo eftir að fara í kúr með Vigga, enda finnst mér óbærileg tilhugsun að ég eigi ekki eftir að hitta hann í fimm vikur. Ég á örugglega eftir að grenja stórfljóti á laugardaginn þegar ég fer í vélina.

En ég ætla að halda áfram að horfa á One Tree Hill og reyna að pakka einhverju niður. Og ég á eftir að komast eitthvað í tölvu á hostelunum úti, svo ég skila inn nokkrum bloggum til að láta vita af mér, og mögulega einhverjum myndum.

Kv. Fanney

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home