29 apríl 2008

46 dagar

Það er þriðjudagskvöld, en ég er ekki búin að fá neina gúrmei máltíð, þar sem hússtjórnartímarnir eru búnir. Síðasti tíminn var fyrir viku og við fengum humar í hvítvínssósu í smjördeigsöskjum, fylltar kjúklingabringur, créme brulée og pavlovu... plús salat og sósa og brauð og allt sem því fylgir. Í kvöld pantaði ég mér bara pítsu, heimsendingarpjakkurinn var stórfurðulegur, fór á taugum, kom hingað tvisvar og endaði á að gefa mér bara pítsuna. Mjög sætt af honum.
Skólinn er sama og búinn, fyrir utan prófin. Mér finnst ég vera búin að afreka heilmikið á þessarri önn, og þá helst þessar 10 bækur sem ég las fyrir yndislestraráfangana í ensku. Kláraði nokkur helstu meistaraverk enskrar tungu, og þar á meðal The Great Gatsby, Moby Dick, The Grapes of Wrath, The Sun Also Rises og To Kill A Mockingbird... og ég verð að segja að Moby Dick sé allra allra allra leiðinlegasta bók sem ég hef lesið. Þvílík þvæla. En það er víst öllum sama hvað mér finnst.
Og núna er ég svo loksins að verða stúdent, með 31 einingu í ensku en bara 6 í stærðfræði. Ég er ekki ennþá búin að átta mig almennilega á því að ég fari ekki í skóla í haust.
Það er minna en mánuður í útskriftina mína. Mig langar ekkert í útskriftina sjálfa, svona formlegheit og vesen og syngja á latínu. Mig langar bara í veislu og húfu og nýjan kjól. Ætla btw að fara að leita mér að kjól um leið og ég fæ útborgað. Hlakka til.
Byrja svo að vinna í Keflavík eftir tvær vikur. Hlakka líka til þess. Ég hlakka samt langmest til að fá að hitta Vigga á hverjum einasta degi. Ég er búin að lofa honum að nudda hann öll kvöld og elda gúrmei máltíðir ofan í hann. Ég er besta kona í heimi.

Farin að læra, listasögupróf bæði á morgun og föstudaginn og ég hef ekki mætt í einn einasta tíma.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home