19 júlí 2008

heima

Ég er komin heim og það er yndislegt. Það er kannski ekkert svakalega hlýtt hérna, en það er sól svo það dugar. Það var fínt veður daginn sem ég fór frá Ástralíu, flugið fór seint um kvöldið þannig að ég gat eytt öllum deginum í sólbaði, og ég fór bara í mínipilsi í flugið og berleggjuð. Sá strax eftir fatavalinu þegar ég fattaði að allar slæðukonurnar horfðu á mig eins og ég væri send frá hinu illa. Þetta tókst samt. Þegar ég var að skrá mig inn í England á Heathrow, og stóð í "Rest of the world" röðinni sem var endalaus, og horfði með öfund á "UK & EU" röðina sem var miklu styttri og gekk mun fljótlegar fyrir sig, hugsaði ég bara hvern ég þyrfti að kjósa næst til að komast í Evrópusambandið. Þegar ég komst loksins að borðinu, það var steikjandi hiti og ég hafði verið að bíða í klukkutíma, sagði konan mér að ég hefði átt að fara í hina röðina. Ég spurði afhverju ég hefði átt að gera það, þar sem Ísland er ekki í Evrópusambandinu, þá sagði hún jú að svo væri, Ísland væri í ESB. Ég fór bara að hugsa hvað ég hefði eiginlega verið lengi úti, hvort ég hefði misst af þessu.

Og núna skil ég ekki ennþá hvað hún var að spá.

Í Brisbane var ég tekin í random tékk og öryggisverðirnir hafa verið eitthvað lesblind því þau voru alveg viss um að ég væri með írskt vegabréf. Ég var ekki alveg viss hvort ég ætti að leiðrétta þau eða ekki.
Ég er líka ennþá alveg á því að maður eigi að keyra vinstra megin á veginum, kíktum í bæinn í dag og mér fannst Viggi alltaf vera á öfugum vegarhelmingi. Maður verður svo ruglaður.

Það er samt alveg rosalega gott að vera komin heim, geta sofið í almennilegu rúmi með sætum strák í staðinn fyrir að sofa í koju í herbergi með fullt af ókunnugu fólki, geta farið í sturtu lengur en í 4 mínútur án þess að fá samviskubit, og þurfa ekki að spandera í rándýrt flöskuvatn þegar ég er þyrst. Ég trúi samt ekki að ég þurfi að mæta í vinnuna á mánudaginn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home