29 apríl 2008

46 dagar

Það er þriðjudagskvöld, en ég er ekki búin að fá neina gúrmei máltíð, þar sem hússtjórnartímarnir eru búnir. Síðasti tíminn var fyrir viku og við fengum humar í hvítvínssósu í smjördeigsöskjum, fylltar kjúklingabringur, créme brulée og pavlovu... plús salat og sósa og brauð og allt sem því fylgir. Í kvöld pantaði ég mér bara pítsu, heimsendingarpjakkurinn var stórfurðulegur, fór á taugum, kom hingað tvisvar og endaði á að gefa mér bara pítsuna. Mjög sætt af honum.
Skólinn er sama og búinn, fyrir utan prófin. Mér finnst ég vera búin að afreka heilmikið á þessarri önn, og þá helst þessar 10 bækur sem ég las fyrir yndislestraráfangana í ensku. Kláraði nokkur helstu meistaraverk enskrar tungu, og þar á meðal The Great Gatsby, Moby Dick, The Grapes of Wrath, The Sun Also Rises og To Kill A Mockingbird... og ég verð að segja að Moby Dick sé allra allra allra leiðinlegasta bók sem ég hef lesið. Þvílík þvæla. En það er víst öllum sama hvað mér finnst.
Og núna er ég svo loksins að verða stúdent, með 31 einingu í ensku en bara 6 í stærðfræði. Ég er ekki ennþá búin að átta mig almennilega á því að ég fari ekki í skóla í haust.
Það er minna en mánuður í útskriftina mína. Mig langar ekkert í útskriftina sjálfa, svona formlegheit og vesen og syngja á latínu. Mig langar bara í veislu og húfu og nýjan kjól. Ætla btw að fara að leita mér að kjól um leið og ég fæ útborgað. Hlakka til.
Byrja svo að vinna í Keflavík eftir tvær vikur. Hlakka líka til þess. Ég hlakka samt langmest til að fá að hitta Vigga á hverjum einasta degi. Ég er búin að lofa honum að nudda hann öll kvöld og elda gúrmei máltíðir ofan í hann. Ég er besta kona í heimi.

Farin að læra, listasögupróf bæði á morgun og föstudaginn og ég hef ekki mætt í einn einasta tíma.

27 apríl 2008

27. apríl

Ég ætti að vera að læra, en ætla að skella inn smá bloggi til að hafa afsökun fyrir því að taka mér pásu. Skólinn er aaalveg að verða búinn, þrír kennsludagar eftir, og svo fer ég í tvö próf. Fyrir utan munnlegt próf í frönsku á morgun og listasögupróf á miðvikudaginn, auk stórrar jarðfræðiritgerðar sem þarf að skila fyrir miðvikudag. Er búin að eiga langt helgarfrí, fór til Keflavíkur á miðvikudaginn og kom ekki heim fyrr en í morgun, til að vinna í dag. Búin að liggja bara í leti; sofa, borða, horfa á dvd (sem ég sofnaði reyndar alltaf yfir), djamma og dansa. Og lærði líka, því má ekki gleyma. Fór líka með Vigga og pabba hans að skjóta á sumardaginn fyrsta, þeir voru að skjóta leirdúfur. Ég prófaði líka, en leyfði mínum dúfum bara að sleppa lifandi.
Annars er það helst í fréttum að ég er komin með framtíðarvinnu... og það í Keflavík! Fæ vinnu í Lyf og heilsu þar, svo það dugar ekkert minna en að flytja í Reykjanesbæ og gerast suðurnesjapakk. Hlakka til að komast úr Reykjavík.
Ég er komin með nýja klippingu, lét kallinn stytta hárið á mér heilmikið og það er æði. Og það er Boston Legal í kvöld sem er líka æði!

48 dagar í að ég fari til Ástralíu!

18 apríl 2008

57 dagar!

Það er föstudagur, og vikan leið svo hratt að ég er hálf utan við mig. Ég og Viggi fórum á Tangann síðustu helgi, söngvarakeppnin og ball, rosa fjör. Eyddum allri helginni í leti og lúxus.
Hef það bara fínt, ein og hálf vika eftir af skólanum, og svo tvö lokapróf. Er þónokkuð bjartsýn á að ná öllu, þannig að ég hlýt að útskrifast. Segjum það allavega.
Veðrið er yndislegt, sumarið er að koma, og það styttist í að ég fari til Ástralíu. Er rosa spennt. Á reyndar eftir að splæsa í bakpoka og ferðatryggingu. Þetta er allt svo dýrt! En þetta er örugglega þess virði, þó ég eigi eftir að lifa á núðlum næstu tvö árin á meðan ég borga upp yfirdráttinn. Þyrfti helst að fá mér líka einhvern ódýran mp3 spilara til að stytta mér stundirnar í löngum flugum og rútuferðum.

Er ekki ennþá búin að finna mér sumarvinnu, það er glatað. Og ég veit ekki hvað ég á að fá mér í kvöldmat.

kvfanney

07 apríl 2008

68 dagar

Ég er svo hallærisleg að ég tel dagana niður, þangað til ég fer til Ástralíu. Er svo fáránlega spennt, geri varla annað en að spá í hvað ég eigi að taka með mér. Ég er háð svo mörgum óþarfa, að yfirleitt þegar ég fer í mjög stutt ferðalög er ég með margar troðfullar töskur. En núna er ég að fara í 5 vikna langa ferð, og má bara hafa með mér 15 kíló. Annars erum við mikið að plana hitt og þetta, förum á brimbrettanámskeið í Byron Bay sem verður mjööög fróðlegt haha, svo ætlum við að fara í svona köfun, þar sem maður syndir með hákörlum og fleiri krúttlegum fiskum. Svo langar mig í zorbing, þar sem maður fer inn í svona stóra plastkúlu og rúllar niður brekku, haha. Ég ætla samt ekki í fallhlífarstökk, það algjörlega kemur ekki til greina. Ekki mín deild sko.

Lítið að frétta héðan samt. Er búin að vera veik, rosa fjör. Fór ekki í skólann í tvo daga, og þegar ég mætti aftur fannst mér meira eins og ég væri búin að missa af tveimur vikum. Má ekki alveg við því. Bara þrjár vikur eftir af kennslu, og svo tvö próf, og svo ætla ég aldrei aftur í menntaskóla. Alveg búin. Er samt alveg jafn týnd og áður í sambandi við þetta "og hvað svo?". Var á háskólakynningu í dag og fannst ég ekki græða neitt frekar en venjulega. Á tonn af bæklingum en finnst ekkert höfða til mín. Það sem mér finnst hljóma skást, er ég svo ekki nógu klár til að komast inní, afþví ég kann ekki stærðfræði.

Eyddi síðustu helgi í Keflavík, eins og oft upp á síðkastið, haha. Skaust bara rétt í Rvk til að fara í vinnuna. Bara tsjill á föstudagskvöldið, en á laugardaginn var grill, partí og svo kíktum við í niðrí bæ. Rosa fjör. Það er líka komið vor og veðrið er búið að vera yndislegt. Ætlaði að taka garðinn í gegn um daginn, nema ég á engin garðverkfæri. Þarf að redda mér svoleiðis, bletturinn er hryllingur. Krakkarnir í hverfinu eru algjörlega óuppaldir, ég kenni þeim um ástandið á garðinum. Eru alltaf að stelast inn í garðinn minn, og ég kom að einhverjum grislingum hérna um daginn að reyna að brjóta grindverkið... lét þá sko heyra það. Það voru líka einhverjir pjakkar hérna í dag að leika sér í ruslageymslunni. Eiga þeir enga foreldra, spyr ég nú bara.

Annars er æðislegur þáttur í gangi á Rúv, ég kveð í bili með mynd frá Gold Coast í Queensland. Þarna verð ég.